Erindi á ráðstefnunni Menntakvika 2020 á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, 1. - 2. október 2020. Höfundar: Ásta Bryndís Schram, lektor og kennsluþróunarráðgjafi á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og kennsluráðgjafi í Kennslumiðstöð Háskóla Íslands Sigurbjörg Jóhannesdóttir, kennsluráðgjafi í Kennslumiðstöð Háskóla Íslands og aðjúnkt á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor á Félagsvísindasviði Ágrip: Kynning. Námskeið í Opinberri stjórnsýslu á Félagsvísindasviði HÍ var kennt í staðnámi haustið 2018 og þeir nemendur sem ekki höfðu tök á að mæta í Háskólann gátu nálgast upptökur af fyrirlestrum á Kennsluvef Uglu. Haustið 2019 voru gerðar breytingar á kennsluháttum og námskeiðið eingöngu í boði í fjarnámi þar sem ekki var gert ráð fyrir neinni mætingu í skólann. Markmið þessa erindis er að lýsa þeim rafrænu kennsluháttum sem voru notaðir í námskeiðinu haustið 2019, þeim stuðningi sem fékkst frá Kennslumiðstöð HÍ og hvaða máli hann skipti fyrir kennara. Sagt verður frá niðurstöðum samanburðargreiningar sem gerð var á námskeiðinu sem staðnámi með fjarnámsmöguleika og sama námskeiði í gegnum Internetið. Námsárangur nemenda, brottfall, áhorf á upptökur og niðurstöður miðmisseris- og kennslukannana var skoðaður. Aðferð. Notuð var blönduð aðferð sem byggði á viðtölum við kennara, rýnihópaviðtölum við nemendur ásamt netkönnun nemenda. Gerð var tölfræðigreining á áhorfi á upptökur, hlutfalli nemenda sem luku námskeiðunum og námsárangri, ásamt niðurstöðum miðmisseris- og kennslukannana árin 2018 og 2019. Niðurstöður sýna m.a. að brottfall nemenda er minna eftir að námskeiðinu er breytt í fjarnám, námsárangur nemenda er meiri og ánægja þeirra með námskeiðið miklu meiri. Einnig kemur fram að aðalástæða þess hversu vel tókst til er brennandi áhugi kennara á að nýta sem best þau rafrænu verkfæri sem eru í boði, sá stuðningur sem kennarinn fékk frá Háskólanum og gott samstarf við kvikmyndagerðarmann. Umræður. Niðurstöður sýna glöggt mikilvægi stuðnings við kennara sem hyggur á breytingar á kennsluháttum og ástæður þess að námskeiðið varð betra sem fjarnám en staðnám með fjarnámsívafi. Vefslóð á upptöku með erindinu er á vefslóðinni: https://youtu.be/xnfrtVxWdJ8